Sérkennsla
Markmið
Skólinn reynir eftir bestu getu að mæta ólíkum þörfum nemenda. Sérkennsla er stuðningur við nemendur eða nemendahóp sem þarfnast tímabundinnar aðstoðar eða samfellds stuðnings um lengri tíma, jafnvel alla skólagönguna. Leitast er við að styrkja sjálfsmynd nemanda með því að leggja áherslu á sterkar hliðar hvers og eins. Einnig er leitast við að ná þessu markmiði með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi.
Kennarar ákvarða þörf einstakra nemenda fyrir sérkennslu í samráði við fagaðila þegar það á við. Ef um mikla sérkennsluþörf er að ræða er leitað eftir greiningu vandans og aðstoð frá sérfræðingum.
Leiðir
Sérkennsla getur farið fram ýmist innan eða utan bekkjarstofu þar sem unnið er með einum eða fleiri nemendum. Hvar og hvernig sérkennsla fer fram er ákveðið í samræmi við aðstæður nemandans og metið hvers konar aðstoð muni nýtast honum best. Leitast er við að sjá nemendum fyrir verkefnum og kennsluaðferðum við hæfi, og beita markvissri þjálfun og fjölbreyttum leiðum til aðstoðar nemendum við að ná grundvallarfærni í lestri, ritun, móðurmáli og stærðfræði. Nemendur eru þjálfaðir í að bera ábyrgð á eigin vinnu og skilum á henni.
Námsmat
Í lok hverrar annar eru markmið í sérkennslu endurskoðuð og notuð við áframhaldandi markmiðssetningu.