Stefna skólans
Í Grunnskólanum í Hofgarði viljum við stuðla að jákvæðum skólabrag og að öll samskipti einkennist af gagnkvæmri virðingu, jafnrétti, jákvæðni og góðum starfsanda. Við skipulagningu skólastarfsins eru eftirfarandi atriði höfð að leiðarljósi:
- Virðing: einstaklingar eru ólíkir og lögð er áhersla á að allir séu metnir að verðleikum. Leitast er við að haga skólastarfinu í samræmi við þarfir og hæfileika hvers og eins.
- Vinátta: lögð er áhersla á félagslega færni; kurteisi í samskiptum, umhyggju og samvinnu. Með glöðu og hlýlegu viðmóti líður öllum betur og afköst verða meiri.
- Metnaður: áhersla er lögð á að allir geri sitt besta og setji markið hátt.
Áhersla er lögð á að tengja námið bæði reynslu og umhverfi nemenda. Nemendur eru þjálfaðir í tileinka sér gagnrýna hugsun eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir, jafnframt því sem þeir þjálfa sjálfstæði og virkni í náminu. Stefnt er að því að nemendur geti sjálfir aflað sér upplýsinga og unnið sjálfstætt að verkefnum sínum með fjölbreyttum vinnubrögðum. Farið er í vettvangs- og fræðsluferðir þar sem nemendur upplifa umhverfið á fjölbreyttan hátt, fræðast um örnefni, gróður og dýralíf.
Skólinn nýtir sér menningu og tækifæri sem samfélagið hér býður upp á.
Hlutverk kennarans er fyrst og fremst fólgið í að skipuleggja, leiðbeina og aðstoða ásamt því að miðla þekkingu. Í skólanum nýtum við m.a. jákvæða agastjórnun og tökum mið af uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar.