Sérstaða skólans
Sérstaða skólans markast af staðsetningu hans og því fágæta umhverfi sem hann er í milli tveggja sanda: Skeiðarársands í vestri og Breiðamerkursands í austri, sunnan undir stærsta jökli landsins. Skólinn þjónar sveitinni Öræfum. Milli austasta bæjarins Kvískerja og vestasta bæjarins Skaftafells eru u.þ.b 45 kílómetrar og árið 2012 telur sveitin um 67 íbúa. Íbúar sveitarinnar hafa vanist því í gegnum tíðina að bjarga sér sjálfir því langt er í næstu þéttbýlisstaði og samgöngur oft erfiðar þó vissulega hafi þar orðið miklar breytingar síðustu áratugi. Aðal atvinnugrein sveitarinnar hefur lengi verið landbúnaður en á síðustu árum hefur ferðaþjónusta verið vaxandi og er orðin mikill drifkraftur í samfélaginu samhliða landbúnaði. Á þessum þáttum byggist sérstaða skólans. Mikil áhersla er lögð á tengslin við hina stórbrotnu náttúru í heimabyggð, að leyfa nemendum að njóta hennar og fræðast m.a. í vettvangsferðum og verkefnum tengdum þeim.
Grunnskólinn í Hofgarði er fámennur samkennsluskóli og hefur lengst af verið fyrir 1.-7. bekk sem skiptist í tvær bekkjardeildir. Nú geta nemendur í 8. – 10. bekk valið hvort þeir stunda námið í Grunnskólanum í Hofgarði eða í Grunnskóla Hornafjarðar.
Lögð er áhersla á góða samvinnu við Grunnskóla Hornafjarðar, t.d. með þátttöku nemenda héðan í vettvangsferðum þeirra.
Húsnæði skólans er um 500m2 og hefur möguleika á nýtingu sem skóli, leikskóli, bókasafn, félagsheimili. Skólalóðin er afgirt og á henni er fótboltavöllur, leiktæki og stórt leiksvæði.