Velkomin á opinberu fréttasíðu Grunnskólans í Hofgarði. Þó starfsmenn og foreldrar skólabarnanna fái auðvitað fréttirnar reglulega á innanhússíðunni, þá hafa margir velunnarar skólans lesið fréttasíðuna og því höldum við áfram að setja póst hingað inn.
Talsverðar breytingar urðu á skólastarfinu síðastliðið haust. Þá lét Pálína Þorsteinsdóttir af störfum og nýr skólastjóri tók við, Magnhildur Björk Gísladóttir. Magnhildur þekkir vel til skólamálanna í sveitarfélaginu, hafandi kennt við skólann á Mýrunum og á Höfn, en síðustu árin sá hún um nýbúafræðslu. Við Öræfingarnir vorum himinlifandi að fá svona reynslubolta til okkar. Eiginmaður Magnhildar Þorvaldur Viktorsson bættist einnig í kennarahópinn, Valdi og Brynja Kristjánsdóttir sjá um kennslu á yngsta- og miðstigi. Auk þess að vera skólastjóri Grunn- og leikskólans í Hofgarði hefur Magnhildur umsjón með unglingastiginu en þar hefur verið tekin upp sú nýbreytni að aðalkennarinn á unglingastigi er á Akureyri. Björk Pálmadóttir sem einnig kennir við Verkmenntaskólann á Akureyri kennir unglingunum í gegnum samskiptaforritð zoom og þau skipuleggja námið sitt í Google Classroom. Gaman er að segja frá því að þetta er brautryðjendastarf, en nú eru fleiri skólar að taka upp þetta kerfi.
Peter sér um íþróttakennsluna á öllum skólastigunum. Tónskólinn er með samstarf við skólann, þeir sem vilja geta fengið leiðsögn í hljóðfæraleik og Sigrún Sigurgeirsdóttir annast það.
Leikskóladeildin fékk formlegt nafn í haust við hátíðlega athöfn. Póstur var sendur á Öræfinga og öllum gafst kostur á að senda inn tillögu að nafni, svo var dómnefnd skipuð: Anna María Ragnarsdóttir, Hafdís Roysdóttir, Pálína Þorsteinsdóttir, Sigurður Gunnarsson og Unnur Bjarnadóttir.
Margar góðar tillögur bárust og þær voru auðvitað ræddar fram og aftur. Eftir vandlega skoðun var niðurstaðan sú að Leikskólinn fékk nafnið Lambhagi. Tvær tillögur bárust að því nafni, það voru Matthildur Þorsteinsdóttir og Peter Ålander sem sendu inn tillögur um Leikskólann Lambhaga.
Í Leikskólanum Lambhaga er Eva Bjarnadóttir deildarstjóri en auk hennar sjá Peter Ålander og Halldóra Oddsdóttir um starfið með börnunum. Halldóra er einnig húsvörður í Hofgarði.
Peter sér einnig um skólaaksturinn, þau Eva keyptu 16 manna bíl svo allur skólinn getur nú farið saman í námsferðir þegar það er á dagskrá. Það munar auðvitað töluverðu fyrir foreldra að komast beint í vinnuna þegar skólabíllinn hefur sótt börnin, í stað þess að þurfa að aka börnunum daglega í skólann. AKA spyr kannski einhver velunnari, geta börnin ekki gengið í skólann? Því er til að svara að þennan skólaveturinn eru engin börn sem búa á Hofi, allir nemendur þurfa að fara 6 kílómetra leið eða lengri til skólans.
Unnur Bjarnadóttir sem séð hefur um mötuneyti skólans um árabil hefur nú látið af störfum. Nú er maturinn keyptur af hóteli á Hofi.
Skólastarfið hefur auðvitað verið með nokkuð hefðbundnum hætti eins og lög gera ráð fyrir. Kennslan fer að sjálfsögðu mest fram í Hofgarði en einnig er samstarf við Grsk.Hornafjarðar um námsferðir. Stöku sinnum er svo farið í sundferðir á Höfn.