Nú er komið að því að skólastjórinn láta í sér heyra á þessari fallegu síðu skólans. En þannig er nú lífið og sumir eru ekki færir um að læra margt í einu.
Undirrituð fékk þann heiður að flytjast í Öræfin á haustmánuðum sem einkenndust af sól og blíðu að taka við starfi skólastóra við Grunnskólann í Hofgarði af henni Pálínu sem hefur stýrt skólanum af röggsemi undanfarin ár. Síðan eru liðnir margir mánuðir og blíðan hefur oft farið afar hratt yfir ásamt óróa í Öræfajökli, vatnavöxtum, músagangi og örugglega mörgu fleiru. Hér er því alltaf líf og fjör.
Þetta ævintýralega umhverfi kom mér algjörlega í opna skjöldu nema af sögusögnum enda alin upp á Höfn og ættuð af Mýrunum þar sem vindurinn fer yfirleitt aðeins í eina átt. Allt lærist þó örugglega og hef ég lagt mig mikið fram að skilja veðrið en það er nú bara satt að segja töluvert flókið dæmi.
Skólahaldið hefur gengið vel og skólinn fékk það verkefni að kenna nemendum upp í 10. bekk. Ekki var þó útséð með að það tækist vegna kennaraskorts. Það var þá gripið til þess ráðs að hluti af náminu er kenndur í gegnum samskiptaforrit þar sem kennarinn er á Akureyri. Þetta fyrirkomulag hefur komið nokkuð vel út þó svo internetið hafi gert okkur lífið leitt en það er þó orðin liðin tíð.
Breyting hefur einnig orðið á nemendafjölda því fjórir nemendur úr grunnskólanum fluttu um áramót og einn úr leikskólanum. En eftir áramót komu tveir nýjir nemendur svo það kemur alltaf maður í manns stað. Ég er því bjartsýn á framhaldið því hér í Öræfum er gott að búa og mannlífið gott og í þeim töluðu orðum heyri ég og sé nefndarmenn Góunefndar 2018 læðast um í Hofarði sposkir á svip og engin fær neitt að vita fyrr en laugardagskvöldið 3. mars.