Leikskóladeildin við Grunnskólann í Hofgarði var opnuð á ný eftir nokkurt hlé í október 2016.
Á leikskólanum hafa verið fjögur til fimm börn. Þau eru á aldrinum eins og uppí fimm ára. Aldursbilið er mikið, en börnin læra að umgangast hvert annað, eins og systkin í stórum systkinahóp. Það gefur auga leið að faglegt starf er með öðrum hætti þegar börnin eru á svo dreifðum aldri. Yngri börn taka stundum þátt í leikjum sem miðaðir eru að eldri börnunum og eldri börnin hjálpa þeim yngri að átta sig á ýmsum þáttum í tilverunni. Við leggjum upp úr góðum samskiptum í samræmi við uppeldisstefnuna Uppeldi til ábyrgðar og leitum mikið í náttúruna sem er hér allt í kring um okkur.
Það er gaman að taka þátt í uppbyggingu. Haustið 2016 voru sett niður ný leiktæki og leikskólalóðin afmörkuð. Síðastliðið haust var síðan ákveðið að efna til nafnasamkeppni hér í sveitinni og úr varð að leikskólinn okkar hlaut nafnið Lambhagi. Það er von okkar að leik-og grunnskólalífið í Öræfum haldi áfram að dafna.