Nemendur í 7.bekk taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni nú eins og mörg undanfarin ár. Þar sem þrír nemendur eru í 7. bekk var haldin undankeppni til að velja fulltrúa skólans sem mun keppa á lokahátíðinni á Höfn 4. mars. Þar mætast 3 skólar, Grunnskólinn í Hofgarði, Grunnskóli Hornafjarðar og Grunnskólinn á Djúpavogi. Undankeppnin var haldin í Hofgarði fimmtudaginn 21.febrúar. Foreldrum og öðrum aðstandendum allra skólabarnanna var boðið að koma og hlusta á upplesturinn. Fyrst lásu krakkarnir eina blaðsíðu hver úr bókinni Bærinn á ströndinni og síðan lásu þau tvö ljóð hvert. Dómarar voru Brynja Kristjánsdóttir, Hafdís Roysdóttir og Regína Hreinsdóttir og þeirra hlutverk var mjög erfitt því allir krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði. Það var gaman að heyra hvað þau fóru vel með textana sína og lögðu sig fram í túlkun og framsetningu. Boðið var upp á ljúffengar veitingar á meðan dómarar réðu ráðum sínum. Að vandlega athuguðu máli var niðurstaðan sú að tveir af þessum þrem voru jafnir í efsta sæti og þurfti að draga um hvor yrði hlutskarpari. Það var Víðir Ármannsson sem sigraði í undanúrslitunum og hann mun því keppa fyrir hönd Grunnskólans í Hofgarði í Stóru upplestrarkeppninni.