Þriðjudaginn 2.apríl var haldinn íbúafundur í Hofgarði. Þar mættu margir starfsmenn stjórnsýslu sveitarfélagsins til að eiga samtal við íbúa um stöðu og framtíð góðs samfélags í Öræfum: hvernig hægt væri að þróa og styðja við hugmyndir. Það er áskorun að byggja upp sveitirnar, hið stóra landsvæði í þessu sveitarfélagi gefur ýmis tækifæri en því fylgja líka ógnanir. – Á fundinum bar ýmis mál á góma og var auðfundið að fulltrúar stjórnsýslunnar vilja gera sitt besta til að liðsinna íbúum eins og þeim er unnt. Í umræðu um skólamál kom fram krafa um skýra stefnu í skólamálum í Öræfum. Hjalti bæjarstjóri spurði hvort við værum sátt við eftirfarandi stefnu: Það verður byggð upp metnaðarfull námsstefna fyrir börn í Öræfum og útfærslan verður þróuð í samstarfi við fjölskyldur þar hverju sinni. Aðspurð svaraði Ragnhildur fræðslufulltrúi því að skóla yrði haldið úti í Öræfum þó einungis væri einn nemandi eftir þar í skólanum. – Fundarmenn voru á einu máli um að vonandi kæmi ekki til slíkrar fækkunar; það er hverju samfélagi nauðsynlegt að hafa íbúa á öllum aldri og þarf að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að fólk hafi tækifæri til að setjast að í sveitunum, sem og á Höfn. Í því samhengi þarf að skoða möguleika á að leysa húsnæðisvanda, en fundurinn tók þó ekki afstöðu til þess með hvaða hætti það yrði gert.