Í gær fengum við gestafyrirlesara í skólann frá Nothingham, heimabæ Hróa Hattar. Það var Leanne Hughes en hún er í hópi breskra jarðfræðinga sem stunda rannsóknir á Virkisárjökli, þau fylgjast með grunnvatni í grennd við jökulinn og mæla hve mikið jökullinn hopar. Leanne útbýtti myndum af jökulsvæðinu sem nemendur klipptu út og settu upp í þrívídd. Einnig fengu nemendur að prófa hvaða samsetning frosins vatns rispaði yfirborð mest; niðurstaðan var að sandblandaður ís rispaði flötinn mest en hreinn ís rispaði ekkert. Krakkarnir fylgdust með og tóku þátt í ýmsum tilraunum því Leanne setti fróðleikinn fram á skemmtilegan máta. Reglulega áhugavert og krakkarnir stóðu sig mjög vel í að hlusta og svara spurningum, það var gaman að heyra að þau voru vel með á nótunum bæði hvað snerti ýmsan fróðleik um jökla og einnig eðlisfræðifyrirbærin sem við höfum verið að fara yfir í vetur.