Í dag er síðasti dagur aprílmánaðar og í morgun var jörð hvít af snjó en hann hefur tekið upp. Mesti snjór vetrarins hefur verið dag og dag í apríl og í síðustu viku voru búnir til snjókarlar og kerlingar á leikvellinum. Í gær heyrðum við í lóunni við skólann þannig að vorið er komið þrátt fyrir snjó og kulda í þessum mánuði enda var sumardagurinn fyrsti á fimmtudaginn í síðustu viku.
Skólastarfið hefur verið hefðbundið en óvenju mikil veikindi hafa herjað á skólafólkið að undanförnu, margar umgangspestir hafa komið hér við sögu í vetur.