Í gær, mánudaginn 6. maí fórum við í skólaferðalag til Vestmannaeyja, allir nemendur og kennarar. Matthildur á Hofsnesi var bílstjóri og leiðsögumaður, hún er ættuð úr Eyjum og bjó þar um tíma.
Á leiðinni til Landeyjarhafnar stoppuðum við á Þorvaldseyri og fengum þar mjög góðar móttökur á safninu, horfðum á mynd um Eyjafjallajökulsgosið og fengum skemmtilega fræðslu hjá Guðnýju um eldgos.
Við fengum frábært veður og gerðum margt skemmtilegt. Siglingin til Eyja var mikil upplifun. Við byrjuðum á að fara á náttúrugripasafnið þar sem nemendur fengu m.a. að halda á lifandi lunda. Svo fórum m.a. upp á Stórhöfða og skoðuðum Ræningjatanga. Við gengum inn í Herjólfsdal, fórum í sund og síðan fórum við niður í Spröngu þar sem nemendur sýndu góða takta í að spranga. Áður en við sigldum til baka fengum við okkur pitsur á veitingastað sem heitir 900 Grillhús.
Þetta var langur dagur, við lögðum af stað snemma. Þeir fyrstu fóru að heiman kl. 7, og þeir síðustu komu heim um um kl. 24:30. En allir voru ánægðir með ferðina og við mættum ekki í skólann fyrr en á miðjum morgni í dag svo að þetta var vel framkvæmanlegt og nú langar flesta að fara aftur til Eyja.