Þegar líður á maímánuð losnar um ýmislegt í fasta skipulaginu og annað kemur í staðinn. Maí er yfirleitt mánuður skólaferðalaga og útistarfs. S.l. nótt gisti skólahópur frá Höfn hér í Hofgarði, 3. bekkur úr Grunnskóla Hornafjarðar en það hefur verið hefð um árabil að 3. bekkjar ferðalagið þeirra sé heimsókn í Öræfin með gistingu eina nótt.
Við í Hofgarði erum að ganga frá öllu sem snýr að bóklegri kennslu, ljúka prófum og undirbúa einkunnaafhendingu sem verður á annan í hvítasunnu kl. 17:00.
Sundkennslan stendur yfir, hún fer fram á Höfn síðustu tvær vikurnar í maí og svo er eftir að koma kartöflum í skólagarðinn. Við sjáum fyrir endann á öllum verkefnum skólaársins og skólastarfi Grsk. í Hofgarði lýkur 31. maí.