Síðastliðinn þriðjudag fór skólinn í vettvangsferð í Svínafell, í fyrsta sinn í margra ára sögu Grsk. í Hofgarði er enginn nemandi þaðan. Við mættum við fjósið á Nýjatúni og Hafdís kynnti okkur fyrir kúnum, þar voru Glóð, Tjalda, Njóla, Kola, Hjálma og fleiri glæsilegar kýr. Við fylgdumst með mjöltunum og litum inn í hlöðuna þar sem mest fór fyrir risastóru fóðurbætissílói; flestar rúllurnar eru geymdar úti þannig að nóg pláss er í hlöðunni. Hafdís fræddi okkur um ýmislegt sem tengist kúabúskapnum og mjólkurafurðum, eftir mjaltirnar voru kýrnar reknar út á tún. Við gengum út að Smjörsteini og þar fóru krakkarnir í leiki og síðan skoðuðum við plöntur; það reyndust vera margar gerðir af plöntum í Svínafelli. Palla benti okkur á Flosahelli og sagði frá Flosa Þórðarsyni og Njálssögu, á þeim tíma voru Svínfellingar valdamikil ætt. Loks gengum við út á aurinn þar sem verið var að reka féð af Heiðinni í rétt. Næstu daga var svo unnið með upplýsingarnar sem safnað var í Svínafelli, m.a. voru plönturnar sem við fundum skoðaðar nánar í Íslensku plöntuhandbókinni.