Síðastliðinn föstudag fengum við góða gesti í skólann. Það voru Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari og Páll Eyjólfsson gítarleikari sem komu á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla. Þau spiluðu tónlist frá ýmsum tímum og kynntu hljóðfærin sín: gítarinn hans Palla var 30 ára en fiðlan hennar Laufeyjar 300 árum eldri eða 330 ára! Þetta var afar skemmtileg dagskrá og gaman að njóta hennar með fleiri góðum vinum úr Öræfum sem mættu til að hlusta með okkur. Við fengum alls konar fróðleik um tónlistina og hljóðfærin. Gítarinn er frekar ungt hljóðfæri, líklega ekki nema 130 ára gamalt, en fiðlan hefur verið til miklu lengur. Gamlar fiðlur geta verið mjög dýrar og það er ekki aðeins vegna þess hve gamlar þær eru heldur er erfitt að finna jafn góðan við og gömlu fiðlusmiðirnir notuðu, hægvaxinn við er erfitt að fá í dag þegar aðal áherslan er á að fá uppskeru fljótt!