Í gærkvöldi 20. nóv. var skemmtikvöld í Hofgarði á vegum Ungmennafélags Öræfa. Formaðurinn, Sigrún Sigurgeirsdóttir sýndi myndir frá ferðalögum á árinu, bæði hérlendis og erlendis og óhætt að segja að það var fjölbreytt og fróðleg kynning á mörgum stöðum þar sem hún hafði gert víðreist. Að því loknu var setið og spjallað yfir kaffi dálitla stund og að endingu var tekin söngsyrpa þar sem Sigurgeir á Fagurhólsmýri og Þorlákur í Svínafelli spiluðu undir og leiddu fjöldasöng. Mæting var góð og þetta var ánægjuleg samverustund íbúanna á öllum aldri.