Þegar börnin fóru heim úr skólanum settust kennarar við að skipuleggja skólastarfið næstu daga. Á morgun verður jólaföndur frá 13-15, þá koma foreldrar og/eða aðrir aðstandendur barnanna og taka þátt í því. Bráðum leggur Stúfur af stað í heimsóknaleiðangur sinn og verður áreiðanlega aufúsugestur á heimilum barnanna. Á laugardaginn verður aðventumessa í Hofskirkju kl. 13 þar sem skólabörnin taka virkan þátt og að því loknu verður boðið upp á kaffi í Hofgarði. Að öðru leyti verður skólastarfið að mestu með hefðbundnum hætti. – Þess má geta að við græddum á því í heimilisfræðinni í dag að brjóta egg í litla skál í stað þess að setja það beint út í deigið: í egginu voru fjaðrir og frekar illa lyktandi ungi! Þetta slapp því vel, einfalt að henda ónýta egginu og taka nýtt í staðin. Bakarar gátu því notið þess að fá ljúffengar smákökur að gæða sér á.