Síðasta skólavika var löng en skemmtileg. Fyrst voru venjulegir skóladagar frá mánudegi til föstudags, en á föstudeginum komu allir aftur í skólann um kvöldið til að halda árshátíð. Krakkarnir fluttu dagskrána með miklum sóma og það eru greinilega efnilegir leikarar og tónlistarmenn í þessum hópi, eins og fyrri árin. Á bak við slíka samkomu liggur mikil og fjölbreytt vinna við velja/þýða efni til flutnings, æfa það, útbúa sviðsmyndir, velja búninga, raða borðum í sal (og að skemmtun lokinni þarf líka að ganga frá). Foreldrar og starfsfólk skólans mætti með veitingar á hlaðborð og eftir dagskrána gæddu allir sér á þeim. Þeð var reglulega vel heppnuð samkoma, það er líka mikils virði hvað sveitungarnir eru duglegir að mæta og styða þannig við skólastarfið.
Á laugardeginum var smíðakennsla. Þá kom Eiríkur Hansson með alls kyns tól og tæki og leiðbeindi krökkunum við smíðar frá 9-3. Eiríkur kennir smíðar í Grsk. Hornafjarðar og við erum mjög ánægð með að fá hann í Öræfin, hann kemur einu sinni á ári og nemendur fá þá smíðakennslu í heilan skóladag, en það þarf að vera um helgi því aðra daga er hann bundinn í skólastarfinu á Höfn. Nemendur hér fá frídag annars staðar á skóladagatalinu í staðinn. Eins og ævinlega skilaði þessi skóladagur sér í góðum gripum af ýmsu tagi.