Helst er nú að segja frá því að vorið er verulega farið að minna á sig með mildu veðri og fuglasöng.
Það má geta þess að leiksýning Möguleikhússins, Eldklerkurinn, var sýndur 27. mars í Hofgarði við mjög góðar undirtektir. Sýningin var mjög vel sótt, um 37 áhorfendur og var almenn ánægja með að fá þennan frábæra menningarviðburð heimsendan. Kaffiveitingar voru í hléinu og þetta var eftirminnileg kvöldstund enda er Pétur Eggerz afar góður leikari.
Einn 9. bekkjar nemandi hjá okkur var í síðustu viku með jafnöldrum sínum úr Grunnskóla Hornafjarðar í vikudvöl í skólabúðum að Laugum í Sælingsdal. Ósvikin ánægja með það.
Nú stendur yfir hjólavika þar sem nemendur eru hvattir til að vera með hjólin sín í skólanum en hjólin fara heim í vikulokin enda erum við að fara í páskafrí um helgina.