Í dag fórum við í skólaferðalag á Klaustur og nágrenni. Fyrsta stopp var við Hlaupið við Lómagnúp en þaðan fórum við í Fjaðrárgljúfur.Á Klaustri skoðuðum legstein Jóns Steingrímssonar, eldprests. Svo gengum við upp að Systravatni og tókum lagið í Sönghelli! Eftir skoðunarferðir um nágrennið þá fórum við í íþróttahúsið á Klaustri. Þar var tekið afar vel á móti okkur. Jói íþróttakennari átti að vera með nemendur í sundi, en hann breytti skipulaginu þannig að krakkarnir voru með okkur í leikjum í íþróttahúsinu í staðin. Fullur salur af nemendum á ýmsum aldri og það var farið í stórfiskaleik, litaleik, kýló og fleira. Að lokum voru nemendur úr Hofgarði orðnir einir eftir og máttu prófa allt sem þau vildu: það var klifrað upp kaðla, farið í körfubolta, tækin í tækjasalnum prófuð og loks var endað í sundi. – Skólastjórinn á Klaustri tók mjög vel í beiðni okkar um að fá að fara í íþróttahúsið og það er reyndar ekki í fyrsta skiptið, skólafólkið á Klaustri hefur alltaf tekið mjög vel á móti nemendum úr Öræfum. – Eftir alla þessa hreyfingu var ágætt að tylla sér í Kirkjuhvoli og horfa á stutta heimildamynd um Eldmessuna. Þaðan var haldið í Systrakaffi þar sem við fengum ljúffengar veitingar og endað í Kjarvali þar sem nemendur gátu valið sér eitthvað fyrir peningana sem veðurteppti ferðamaðurinn gaf þeim í vetur! Mér fannst þetta mjög vel heppnað skólaferðalag.