Í vetur hafa fjórir nemendur á miðstigi og unglingastigi Grunnskólans í Hofgarði unnið verkefni á vegum Landsbyggðavina, en þetta félag er með starfsemi með ungu fólki í grunnskólum landsins. Unnin eru verkefni þar sem áhersla er lögð á að draga fram hugmyndir ungmenna um framfarir í heimabyggð, bæði í borginni og í dreifbýli.
Fjórmenningarnir, þeir Stefán Freyr Jónsson, Gissur Gunnarsson, Ísak Einarsson og Styrmir Einarsson unnu til fyrstu verðlauna í hugmyndavinnu fyrri hluta verkefnisins, og í seinni hlutanum deildu þeir fyrstu verðlaunum með Grunnskólanum á Hólmavík . Síðari hluti verkefnisins var nánari útfærsla á því hvernig hugmyndirnar gætu komist í framkvæmd.
Þetta voru peningaverðlaun og afhending fór fram við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu í Reykjavík 22. maí s.l. þar sem verðlaunahafar kynntu verkefnin fyrir viðstöddum. Sigurður Ingi Jóhannsson , ráðherra, ávarpaði samkomuna ásamt fleirum, m.a. frá stjórnsýslu heimabyggða þeir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar, og Kristján Guðnason bæjarstjórnarmaður á Höfn.
Aðrir verðlaunahafar í seinni hluta verkefnisins voru Grunnskólinn í Hrísey og Víðistaðaskóli í Hafnarfirði sem einnig unnu til verðlauna í fyrri hlutanum. Allir verðlaunahafar seinni hlutans fengu viðurkenningarskjöl og áprentaða boli merkta Landsbyggðarvinum.
Sú hugmynd sem kom frá Grunnskólanum í Hofgarði að byggja sögusafn með veitingastað var þyngst á metunum að tryggja fjórmenningunum verðlaunin ásamt hugmyndum um að auka fullvinnslu afurða í heimabyggð þar sem ferðamenn ættu kost á fjölbreyttum heimaunnum réttum á matsölustöðum byggðarlagsins. Einnig komu fram þær skemmtilegu hugmyndir um afþreyingu að setja upp útitafl og aðstöðu til að æfa bogfimi eða útbúa bogfimigarð.
Skólinn hefur nú á stefnuskrá að halda verkefninu vakandi næsta vetur með upplýsingasöfnun og í samstarfi við Einar og Matthildi á Hofsnesi er áformað að byrja á því að gera ýmislegt úr sögu sveitarinnar sýnilegt í kaffiaðstöðu sem þau ætla að undirbúa með haustinu í kaufélagshúsinu á Fagurhólsmýri. Þau eru að ganga frá kaupum á þessu húsi og munu nýta það sem aðstöðu fyrir sitt ferðamannafyrirtæki, Öræfaferðir.
Landsbyggðarvinir stuðla m.a. að verndun náttúrulegra og menningarlegra verðmæta, svo og sögulegra minja. Vonandi á þetta verkefni skólans eftir að vaxa og dafna í framtíðinni með aðkomu margra sem hafa áhuga á að tengja gamla tímann við nútímann ásamt því að njóta matarmenningar og afþreyingar í heimabyggð okkar.