Nú er komið fram í september og dagarnir orðnir nokkuð hefðbundnir, þessa stundina sitja nemendur við stærðfræðivinnu. Hjóladagar hófust í síðustu viku þannig að allir nemendur geta hjólað að vild í frímínútum og er það vel nýtt. Í síðustu viku eyddum við einum skóladegi í Skaftafelli í dásamlegu veðri. Þegar við kennararnir fórum til Brighton í apríl síðastliðinn þá vörðum við einum rigningardegi í Stamner skógi við útinám, það var mjög skemmtilegt en auðvitað er enn meira gaman þegar hittist á gott veður í útinámi. Við erum auðvitað heppin hér í Grsk. í Hofgarði hvað við höfum góða aðstöðu til útivistar við skólann, skólalóðin er stór og hægt að ganga út á móann ofan við skólann og um næsta nágrenni án þess að fara út á þjóðveginn. Í síðustu viku voru settar upp nýjar rólur og gengið frá gúmmímottum undir þær, rólurnar sem fyrir voru höfðu verið mikið notaðar um árabil en það þarf stundum að endurnýja búnað.