Fyrsta kennslustund dagsins var helguð bókmenntum, þá var verið að lesa sögur og velta fyrir sér innihaldinu. Síðan tók við stærðfræði og hún var bráðskemmtileg að venju.
Í frímínútunum fóru allir út að róla, en þar sem það var mengun í lofti var fljótt farið inn aftur og flestir sneru sér að byggingarvinnu, það voru byggð hús, bílar, hestar og hundar úr Lego-kubbum.
Hádegismaturinn var soðinn blóðmör og lifrarpylsa með kartöflum, rófum, gulrótum og jafningi. Með þessu voru heimabökuð pítubrauð, síðan voru ávextir og grænmeti í eftirrétt.
Eftir hádegið var handavinna, allir eru að sauma litla dúka með nál og þræði. Svo sauma nemendur til skiptis í saumavél: ferðasett til að geyma tannbursta og ýmsar snyrtivörur. Öllum finnst gaman í handavinnu en verkefnin eru auðvitað mis skemmtileg.
Síðasta kennslustund dagsins er leikfimi en hún verður inni í dag, vegna mengunar úti.