Skólastarf er hefðbundið í jólamánuðinum í Hofgarði, t.d. voru bakaðar piparkökur í dag og á föstudaginn kl. 16:15 verður aðventuathöfn í Hofskirkju með þátttöku skólans.
Jólapróf eru langt komin hjá börnunum en þar fyrir utan eru nokkrir eldri sveitungar okkar sem eru í fjarnámi að taka sín próf hér í skólanum. Þar skiptir sköpum að hafa gott netsamband. Öræfingar eru orðnir góðu vanir hvað þetta varðar og margir nýta sér netið við nám og próf.
Það eru því mikil viðbrigði þegar sambandið dettur út en þegar þetta er skrifað hafa tvö heimili á Fagurhólsmýri verið algerlega sambandslaus í marga dag vegna bilunar! Annað heimilið missti sambandið fyrir 9 dögum og hitt fyrir 6 dögum. Þar sem útvarpsskilyrði hafa lengi verið mjög slæm á Fagurhólsmýri var það bylting að geta hlustað á útvarpið í gegnum Öræfanetið þegar það kom. En vegna þessarar bilunar geta þessi heimili hvorki séð sjónvarp, hlustað á útvarp né farið á netið. Það er umhugsunarefni ef tæknin er ekki traustari en svo að íbúar geti þurft að sætta sig við svona einangrun í marga daga. Nútíminn gerir ráð fyrir að daglega sé hægt að hafa samskipti í tölvu, sækja upplýsingar, námsefni, próf og borga reikninga svo eitthvað sé nefnt. Og þegar það bætist við að missa sjónvarp og útvarp líka þá er þetta mikil skerðing svona langan tíma. Vonandi hefur Vodafone einhver ráð til að kippa þessu í lag hið allra fyrsta.