Í gær voru litlu-jólin í skólanum. Við lásum um ævintýri Stúfs með krökkunum undanfarna daga, sungum jólalög og hlustuðum á jólasögu, að þessu sinni var lesin Breiðfirsk sjóferðasaga. Svo var jólapósturinn lesinn í sundur og þegar allir höfðu fengið jólakortin sín var skipst á gjöfum; krakkarnir höfðu allir komið með pakka í skólann en að þessu sinni fengu öll börnin líka nýja og glæsilega vettlinga sem Brynja kennari hafið prjónað handa þeim. Síðan komu foreldrarnir í skólann og allir settust við veisluborð Unnar, þar voru að minnsta kosti 10 tegundir af heimabökuðum jólakrásum!
Í dag kom Borgþór Freysteinsson frá forvarnadeild Slökkviliðs Hornafjarðar í skólann. Hann sýndi okkur hvað eldur getur verið fljótur að breiðast út í húsum og hve mikilvægt það er að kunna réttu viðbrögðin ef það kviknar í (best að taka fram að hann sýndi okkur þetta á myndböndum, hann kveikti ekki í neinu). Einnig minnti hann okkur á að skipta um rafhlöður í reykskynjurum, best er að gera það að árlegum hluta af jólaundirbúningnum. Svo þurfa allir að yfirfara útgönguleiðirnar heima hjá sér, hvað á að gera ef við vöknum við vælið í reykskynjaranum! Logandi kerti þurfa alltaf að vera í öruggri fjarlægð frá eldfimum efnum og ef við viljum skreyta með greni þá er best að kertin séu í stjökum en ekki innan um grenið.
Já það er gott að yfirfara eldvarnirnar fyrir hátíðirnar og vonandi þarf aldrei að grípa til þessara viðbragða sem við vorum að æfa okkur í.
Við í skólanum sendum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár til allra vina okkar og velunnara.