Þá er skólastarfið vel komið í gang þetta haustið, skólinn var settur 24. ágúst. Það var fámenn og góðmenn athöfn en nú er fjöldi nemenda í sögulegu lágmarki, aðeins 4 börn. Hefur aldrei verið svo fámennur áður en það eru þó teikn um að skólinn muni rísa úr þessari lægð.
Allt fer fram með hefðbundnu sniði í skólastofunni og þess á milli njótum við veðurblíðunnar úti eftir venju fremur kalt sumar. Það er hjólavika og því gott að fá þetta góða veður enda eru hjólin óspart notuð. S.l. föstudag vorum við í Skaftafelli, rifjuðum þar upp margt úr sögu sveitarinnar enda margar aðgengilegar upplýsingar þar. Áttum góða stund í Selbænum, gengið var upp að Svartafossi og niður Gömlutún, höfðum nestistíma og leiktíma niðri á tjaldstæði og endað var á að koma við í upplýsingamiðstöðinni og í veitingasölunni. Frábært veður og góður dagur.
Framundan eru venjulegir kennsludagar og svo að fara austur á Höfn í næstu viku á dagskrána Tónlist fyrir alla.