Í gær settust nemendur okkar á skólabekk með jafnöldrum sínum á Höfn, voru með þeim í kennslustundum og fylgdu þeim einnig á dagskrána Tónlist fyrir alla í Hafnarkirkju. Að þessu sinni var það Tríópa sem samanstendur af söngvurunum Hallveigu Rúnarsdóttur sópran, Jóni Svavari Jósefssyni barítónsöngvara og Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur píanóleikara, sem flutti dagskrána. Fyrst voru flutt nokkur lög úr ýmsum áttum en svo enduðu þau á atriðum úr Töfraflautunni eftir Mozart. Þar fengum við m.a. að kynnast káta fuglaveiðaranum Papageno og kærustunni hans Papagenu. Þetta var lifandi og skemmtilegur flutningur og virtust krakkarnir hafa gaman af.
Þegar skólinn var búinn fóru okkar börn í sund, og að endingu settumst við inn á Ósinn og snæddum pizzu fyrir heimferðina. Langur dagur en góður.