Í dag höldum við upp á dag íslenskrar tungu sem var reyndar í gær 16. nóvember á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Það mætti örugglega finna þó nokkur orð yfir veður á þessum degi því að það var nokkuð misjafnt í sveitinni í gær. Víðast hvar var einhver vindur, a.m.k. gola eða venjulegt rok, en sums staðar logn á milli strjálla hviða sem urðu í sumum tilfellum þó nokkuð miklar rokur. Í Sandfelli hlýtur það að hafa talist ofsarok en þar mældist vindstyrkurinn mest 45 m/sek. Fárviðri kallast það ef vindhraði nær 33 m/sek. svo að við erum alveg í rétti með að nota það orð á svona degi. Lítið var um sólskin en þó ágætis bjartviðri og ekki gaddur enda var hiti á mæli og því nothæfur þurrkur fyrir þvott svo lengi sem hann ekki fauk. En vegna þessa hvassviðris urðum við að fresta því að halda upp á dag íslenskrar tungu þangað til í dag enda komast allir leiðar sinnar í blíðviðrinu núna.