Skólinn hófst eftir jólafrí á mánudeginum 4. jan. Eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að þjófstarta þorrablóti skólans svo um munaði og halda það fyrstu helgina eftir að skólinn byrjaði og stefnt að föstudeginum. Vinnuvikan endaði þó öðruvísi en ætlað var, því að það hvessti með látum á fimmtudeginum og var ekki farandi um fyrr en veðrinu slotaði að mestu leyti á laugardeginum. Það var því hvorki skólastarf né þorrablót á föstudeginum en á laugardagskvöld þann 9. jan. var haldið ágætt þorrablót í Hofgarði með almennri þátttöku sveitunganna að venju. Snæddur var þorramatur og á eftir var farið í leiki, sungið og dansað smástund.
Sunnudagurinn var bjartur og fagur og nýttist vel fyrir gönguhóp ungmennafélagsins þar sem gengið var upp að Svartafossi og virðist þessi stilla nú komin til að vera þessa viku og kunnum við vel að meta það.