Nú styttist til skólaloka, vorverkin eru í algleymingi með prófum, frágangi og ýmsum öðru vísi verkefnum en stundataflan segir til um þó að venjulegar kennslustundir séu einnig flesta daga. Um þessar mundir eru nemendur af og til í ferðum austur á Höfn v. sundkennslu og einnig hafa börnin fengið smíðatíma þar. Í gær var farið í þjóðgarðinn í Skaftafelli í ruslatínslu og á eftir voru grillaðar pylsur. Og bráðum förum við að huga að kartöfluræktun skólans fyrir mötuneyti næsta skólaárs. Nokkrir framhaldsskóla- og háskólanemar hafa verið hér með annan fótinn síðustu vikurnar vegna próftöku í sínu námi, flestir þeirra eru í fjarnámi og fá prófin send og afgreidd til baka í samvinnu við skólann. Það eiga því ýmsir erindi í Hofgarð. Nú er útlit fyrir verulega fjölgun barna í sveitinni fyrir næsta skólaár og vonandi spennandi tímar framundan en skólinn hefur aldrei verið eins fámennur og í vetur, að þessu sinni líklega minnsti skóli landsins. Þetta árið hafa verið 4 börn, en stefnir í að þau verði allt að 11 í grunnskóla og fáein leikskólabörn, svo að það vantar starfsfólk fyrir næsta skólaár.
Pingback: Cıvata