Þá er skólinn kominn í gang þetta haustið. Skólasetning var í gær og mættu þar 3 nýjar fjölskyldur frá hótelinu á Hnappavöllum. Sú breyting var ákveðin í skólasamfélagi sveitarfélagsins að nokkrir nemendur okkar í elstu bekkjunum fái umsjónarkennara á Höfn og tilheyri sínum bekkjum þar, fari austur í reglulegar staðlotur en vinni þess á milli í Hofgarði hjá kennara. Þar fyrir utan eru 6 yngri nemendur komnir hér í skóla. Einnig er verið að undirbúa opnun leikskóladeildarinnar við Hofgarð fyrir 5 börn á leikskólaaldri en það er langt síðan leikskóladeildinni var lokað þegar öll börnin höfðu vaxið upp úr henni. Það er sem sagt líflegra við Hofgarð núna en hefur verið lengi. Samtals stefnir í að 16 börn á leik- og grunnskólaaldri fái þjónustu í Grunnskólanum í Hofgarði í vetur.