Fyrsta vikan var ánægjuleg. Fór rólega af stað þar sem skoðuð voru námsgögn fyrir hvern og einn og byrjað að vinna í bóklegum greinum. Lögð var áhersla á að kynnast í hópnum og að nýir nemendur og starfsmenn kynntust dálítið umhverfinu.
Liður í því var t.d. ratleikur í Hofgarði, berjaferð ásamt útileikjum og fræðslu í Sandfelli og vikan endaði svo með að gengið var frá skólanum fram hjá Hofsbæjunum og farið yfir nöfn bæjanna og svo endað í rétt austur með fjallinu þar sem heitir Stekkatún. Þar var líf í tuskunum þegar nemendur fengu að hjálpa til að draga lömbin eftir tilsögn heimamanna og börnin létu ekki sitt eftir liggja. Kapp og ánægja leyndi sér ekki. Börnin sem fóru heim í dag voru glöð en ekki alveg hrein 🙂