Það hefur aldeilis verið nóg að gera í skólastarfinu og hefur það alveg lent útundan að skrifa fréttir af því. Veðurfarið hefur verið svo milt á þessari önn að fátt hefur minnt á veturinn en allt í einu eru jólin farin að nálgast. Skólahald hefur verið hefðbundið og hafa allir smám saman verið að venjast nýjum aðstæðum. Við héldum upp á dag íslenskrar tungu 16. nóvember með dagskrá fyrir foreldra. Í lok nóvember komu menn frá fyrirtækinu Lappset, settu upp girðingu utan um leikskólalóð með sandkassa og ýmsum útileiktækjum. Yngstu börnin voru því heldur kát með þessa nýju leikaðstöðu í aðventubyrjun. Á morgun síðdegis verður aðventustund í Hofskirkju með þátttöku skólans. En í dag er það að frétta að 20 erlendir starfsmenn sem vinna hér í sveitinni við ferðaþjónustustörf ljúka námskeiði í íslensku sem hefir staðið síðan í haust og er því útskrift hjá þeim í dag.